*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 10. júlí 2018 11:16

ISI tvöfaldar starfsemina á Írlandi

Iceland Seafood hyggst tvöfalda verksmiðju í eigu írsks dótturfélags síns, Oceanpath, á árinu.

Ritstjórn
Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, segir mikil tækifæri fólgin í að svara kalli neytenda.
Haraldur Guðjónsson

Stjórnendur Iceland Seafood hafa ákveðið að tvöfalda á árinu ferskfiskverksmiðju dótturfélags fyrirtækisins, Oceanpath, á Írlandi. Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood, segir ástæðuna söluvöxt félagsins og aukna eftirspurn eftir sjávarafurðum hjá írskum neytendum.

Iceland Seafood keypti tvo þriðju hluta Oceanpath Limited fyrir rúman 1 og hálfan milljarð íslenskra króna í mars á þessu ári. Auk Oceanpath, sem er stærsti framleiðandi og söluaðili ferskra sjávarafurða til smásöluaðila á Írlandi, á Oceanpath Limited verksmiðjuna Dunn‘s of Dublin, sem framleiðir og selur reyktar sjávarafurðir og sérvörur úr sjávarfangi.

Töluvert magn af ferskum fiski er nú þegar keyptur frá Íslandi og gert er ráð fyrir að þau viðskipti aukist á næstu misserum. Í dag er ferskvörunni flogið frá Íslandi til Írlands þar sem fiskurinn er framleiddur sérstaklega fyrir heildsölu- og smásölumarkað á Írlandi.

,,Það eru enn ónýtt tækifæri í því að fylgja fisknum eftir þegar hann er kominn úr landi með það að markmiði að skapa vöru sem sérsniðin er að kröfum neytenda á hverjum markaði fyrir sig og auka þannig verðmæti vörunnar enn frekar.“ segir Helgi Anton.