Frásögn Stefáns Eiríkssonar af samskiptum sínum við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra kom nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í opna skjöldu, ekki síst því hún var allt öðru vísi en Hanna Birna hafði upplýst þingflokkinn um á fundum.

Þetta kemur fram á RÚV , sem fjallar um samtöl fréttastofu við þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þar segir að eftir samtöl við þingmenn sé ljóst að staða Hönnu Birnu innan þingflokksins hafi þrengst mikið.

Einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það svo að ísinn væri að bráðna undan Hönnu Birnu. Þá nefndu aðrir að hún hlyti að íhuga alvarlega að segja af sér embætti. Gerði hún það myndi hún ekki aðeins hverfa af ráðherrastóli heldur einnig segja af sér þingmennsku.

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins ber saman um að málið hljóti að verða rætt á fundi þingflokksins á mánudag. Þó telja þeir ólíklegt að þingflokkurinn leggi fram ályktun um málið.

Enginn þingmaður flokksins vildi sjá sig við RÚV undir nafni. Nokkrir þeirra nefndu að lögð hefði verið sú lína að þingmenn tjáðu sig ekki opinberlega um málið heldur létu forystu flokksins um það.