„Jú, það gæti komið til niðursveiflu í efnahagslífinu, vöxtur útlána mun verða afar hóflegur, það er afar erfitt að verða sér úti um fjármagn og útlánatap mun vaxa. Þrátt fyrir það er lausafjárstaðan það sterk að hún tryggir að enginn umræddra aðila þarf  að afla sér fjár á lánsfjármörkuðunum fyrr en þegar komið er fram á árið 2009 og menn beina sjónum sínum nú fremur að því að byggja upp innlán og skera niður rekstrarkostnaðinn.”

Þetta segir í samantekt í skýrslu sérfræðinga norræna fjárfestingabankans ABG Sundal Collier ASA, sem skráður er í norsku kauphöllinni, en þeir sóttu Ísland heim fyrr í mánuðinum og ræddu við stjórnendur og sérfræðinga  Kaupþings, Landsbankans, Glitnis, Straums-Burðaráss, Existu auk stjórnenda og sérfræðinga Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Sérfræðingar ABG Sundal Collier segja að sú mynd sem þeim hafi verið birt í þessari heimsókn af Íslandi sé mun jákvæðari en sögusagnir á markaði hafa gefið til kynna.

„Að því gefnu að við greinum ekki (enn) íslensku félögin er niðurstaða okkar sú að áhættan sé mikil en að hún endurspeglist vel í núverandi verði hlutabréfa þeirra.”