Fréttir bárust af því að ISIS hafi nú tekið til launalækkana fyrir stríðsmenn sína í Sýrlandi og Írak. Í minnisblaði sem var deilt út til yfirmanna hersins lýsa yfirmenn hryðjuverkasamtakanna því að óvenjulegar aðstæður krefjist þess að mánaðarleg laun hermannanna verði lækkuð um sem nemur 50%.

Þá hafa laun venjulegs hermanns verið í kringum 400 -1.200 dalir mánaðarlega, eða um 52 - 156 þúsund íslenskar krónur - en búast má við að launin lækki þá í 200 - 600 bandaríkjadali, eða 26 - 78 þúsund íslenskar krónur.

ISIS er skammstöfun á Islamic State of Iraq and Syria, sem þýðist lauslega sem Íslamskt ríki Írak og Sýrlands. Halda mætti að ISIS væri einfaldlega sundurleitur og fámennur hópur hryðjuverkamanna, en svo er ekki. Í raun og reynd eru samtökin gífurlegt bákn, sem stendur í skattheimtu og olíusölu, til þess að fjármagna hryðjuverkastarfsemi sína.

Það er kostnaðarsamt að standa í stríðsrekstri, og þegar fjármagn ríkisins er að miklum hluta byggt á pappírs- og málmpeningum - eins og er í stakk búið fyrir ISIS -  er hætta á að andstæðingar ríkisins geti einfaldlega þurrkað út fjármagnið með vel áætlaðri árás á banka í eigu þess.

Einmitt þetta gerðist nú á dögunum, þegar Bandaríkjamenn slepptu sprengjum yfir byggingu í Mosul í Írak, en að sögn talsmanna bandaríska varnarmálaráðuneytisins þurrkuðust þar út fleiri milljónir dala.

Þá hafa loftárásir óvina ISIS einnig miðað á olíulestir hryðjuverkasamtakanna, en mat sérfræðinga er að á síðasta ári hafi tekjur ISIS af olíusmygli numið 40 milljónum dala mánaðarlega, eða 5,2 milljörðum íslenskra króna.

VIðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um ISIS - lesa má meira um olíusöluna fyrrnefndu hér , og skattlagningu samtakanna hér .