Sjónvarpsrásir og samfélagsmiðlasíður frönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV5Monde voru yfirteknar af hópi hakkara sem sögðust vera á vegum hryðjuverkasamtakanna ISIS seint í gærkvöldi.

Hakkararnir rufu útsendingu á ellefu sjónvarpsrásum stöðvarinnar í marga klukkutíma og birtu skilaboð á vefsíðu hennar.

Í skilaboðunum var François Hollande, frakklandsforseti, sakaður um að hafa gert ófyrigefanleg mistök með því að hafa tekið þátt í stríði sem „þjónar engum tilgangi“ en þar er vísað til aðkomu frakka að loftárásum gegn ISIS-liðum í Írak og Sýrlandi sem leidd er af Bandaríkjamönnum. „Það er þess vegna sem frakkar fengu Charlie Hedbo og Hyper Cacher í janúar,“ stóð einnig í skilaboðunum en þar er vísað til tveggja hryðjuverkaárása í París í janúar þar sem sautján manns létu lífið.

Að sögn sjónvarpsstjóra TV5Monde eru útsendingar hafnar að nýju en sjónvarpsstöðin getur enn sem komið er aðeins sýnt upptökur af eldra efni stöðvarinnar.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times og á heimasíðu TV5Monde .