*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 22. september 2021 16:19

„Ísköld sturta vaxtahækkana“ framundan?

Agnar Tómas Möller segir ábyrgðarlaus kosningaloforð stjórnmálaflokkanna hafa hvellsprengt verðbólguvæntingar.

Ritstjórn
Agnar Tómas Möller.
Aðsend mynd

Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu, segir „ábyrgðarlaus kosningaloforð stjórnmálaflokkanna hafa hvellsprengt verðbólguvæntingar“ í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter. 

Með færslunni fylgir mynd sem sýnir þróun verðbólguálags ríkisskuldabréfa til fimm ára, þar sem sjá má að verðbólguálagið hefur hækkað skarpt í september. Verðbólguálag ríkisskuldabréfa sýnir muninn á vöxtum á óverðtryggðum og verðtryggðum ríkisskuldabréfum og er oft notaður sem mælikvarði á þróun verðbólguvæntinga.

Tómas segir í færslunni að fátt annað sé í kortunum en að Seðlabankinn sendi íslensk heimili og fyrirtæki í „ískalda sturtu vaxtahækkana og bremsi ný útlán, s.s. með hækkun bindiskyldu og sveiflujöfnunarauka“. Lokar hann færslunni svo með myllumerkinu „allir tapa“.  

Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, hefur einmitt hvatt næstu ríkisstjórn til að draga úr ríkisútgjöldum og hætta hallarekstri

„Það mun koma í bakið á okkur ef ríkissjóður heldur áfram að eyða á sama tíma og atvinnulífið er að sækja í sig veðrið og nýir sprotar eru að skjóta upp kollinum. Þá er okkur í Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti til þess að hægja á einkageiranum,“ sagði Ásgeir í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála.