Hlutabréfamarkaðir beggja vegna Atlantshafsins enduðu hærra en þeir hafa gert mánuðum saman á föstudag, eftir að hagtölur í Bandaríkjunum og Þýskalandi sýndu betri stöðu en búist hafði verið við. Þetta kemur fram í FT.

Tölurnar sem um ræðir eru annars vegar um atvinnuleysi í Bandaríkjunum, sem Obama forseti sagði sýna að nú stefndi í rétta átt. Hins vegar voru þetta tölur um útflutning í Þýskalandi, sem sýndu að hann hefði aukist um 7% og talin var frekari staðfesting þess að batinn þar yrði „V-lagaður“, þ.e.a.s. snöggur og með stuttu stoppi á botninum, að því er segir í FT.

Bandaríska hlutabréfavísitalan S&P 500 hækkaði um 1,3% og lokaði í 1014 stigum, sem er hæsta gildi hennar frá því snemma í október í fyrra. Í Evrópu náði FTSE Eurofirst 300 vísitalan 9 mánaða hámarki.

52% hækkun frá botninum í mars

Sumir telja raunar að viðsnúningur á hlutabréfamörkuðum hafi verið ískyggilega hraður. Þannig segir MarketWatch frá því að S&P 500 hafi hækkað um 52% frá því hún náði lægsta gildi sínu innan dags 6. mars sl. og jafnvel þeim bjartsýnustu á markaðnum þyki þetta nokkuð langt gengið. Haft er eftir Raymond James, yfirmanni fjárfestingagreiningar hjá Jeffrey Saut, sem spáði því 2. mars að markaðurinn hefði náð lágmarki, að hann yrði ekki hissa þó að hlutabréf lækkuðu aðeins áður en þau héldu áfram að hækka. Lækkun yrði þó væntanlega skammvinn, þar sem merki séu um að bandaríska hagkerfið sé að rétta úr kútnum og að margir fjárfestar eigi mikið lausafé.