Stofnunin Social Progress Imperative birti í dag niðurstöður mælinga á lífsgæðum og félagslegum framförum 149 þjóða heims. Ísland er í sjötta sæti listans í ár en þetta er jafnframt í sjötta sinn sem mælingin er framkvæmd.  Í tilkynningu segir að úttektin í ár taki nokkuð mið af því hvar þjóðir heims standa þegar kemur að Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

Noregur trónir á toppi listans annað árið í röð en Norðurlöndin eru öll í sex efstu sætunum. Sviss er í þriðja sætið og Nýja Sjáland í því sjöunda.

„Ísland er í 1. sæti í fimmtán af 51 vísi listans. Ísland er númer eitt þegar horft er til aðgengi að rafmagni sem er í dag ein okkar mesta auðlind. Samkvæmt listanum er hvergi í heiminum til dæmis meiri umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum en á Íslandi, þátttaka þeirra í samfélaginu er mest hér og ofbeldi í þeirra garð hvergi minna. Ísland er líka í efsta sætinu þegar kemur að jákvæðu viðhorfi til samkynhneigðra.

Einn helsti veikleiki Íslands samkvæmt úttekt SPI eru á vísum sem mæla málefni umhverfisgæða og vatns og hreinlæti. Þar erum við eftirbátar þeirra þjóða sem hafa sambærilegar tekjur og þurfum að bæta um betur. T.d. þegar kemur að verndun lífríkisins (biome protection), þar lendir landið samkvæmt úttekt SPI í 87. sæti á listanum, sem er langversta staða landsins þegar horft er til einstakra mælinga,” segir í tilkynningu um niðurstöðu mælinga Social Progress Imperative