Þegar litið er til bráðabirgðaniðurstaðna fyrir landsframleiðslu á mann árið 2015 var hún 23% yfir meðaltali ESB ríkja og í 10. sæti ríkjanna 37. Samkvæmt sömu niðurstöðu  er Lúxemborg í fyrsta sæti en landsframleiðsla á mann var þar 164% yfir meðaltali esb ríkjanna. Írland var í öðru sæti og Sviss í því þriðja. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofu Íslands.

„Magn vergrar landsframleiðslu á mann á Íslandi árið 2013 var 17% yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna 28, samkvæmt endanlegum niðurstöðum. Ísland var 11. í röð 37 Evrópuríkja,“ segir meðal annars í fréttinni.

Magn einstaklingsbundinnar neyslu á mann

Magns einstaklingsbundinnar neyslu á mann á Íslandi var 12% yfir meðaltali ESB ríkja samkvæmt endanlegum niðurstöðum fyrir árið 2013. „Þar var Ísland 13. í röð landanna 37 og var Lúxemborg í fyrsta sæti 45% yfir meðaltali ESB ríkjanna. Þegar litið er til bráðabirgðaniðurstaðna fyrir árið 2015 var einstaklingsbundin neysla á mann á Íslandi 13% yfir meðaltali ESB ríkjanna og Ísland í 10. sæti af ríkjunum 37,“ er einnig tekið fram í fréttinni.