Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um ráðstafanir gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna kemur fram að á Íslandi er lagt hald á meira magn ólöglegra fíkniefna miðað við íbúafjölda en annars staðar á Norðurlöndunum og raunar meira en gengur og gerist víða um heim. Erfitt er þó að segja til um hvort þetta þýðir að tollgæsla hér sé skilvirkari en gengur og gerist eða hvort tilraunum til smygls hingað til lands hefur fjölgað, Það er sem sagt afar erfitt að henda reiður á umfangi fíkniefnamarkaðarins en Ríkisendurskoðun segir að eins og er geti yfirvöld ekki vitað með vissu hvaða áhrif aðgerðir þeirra hafa í baráttunni.

Tillögur Ríkisendurskoðunar til umbóta teljast þó vart sérlega róttækar, en þær miða að breytingum á umgjörð eftirlits, bættum aðferðum við áhættustjórnun og efldri samvinnu stofnana. Öllu róttækari eru tillögur lögreglustjóra nokkurs í Bretlandi sem segir að bann við fíkniefnum sé óskilvirkt og ósiðlegt og beri að leggja niður. Stefán Eiríksson, lögreglustjórinn í Reykjavík, segir niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar sýna að margt hafi áunnist í baráttunni gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna en hefði vel viljað sjá Ríkisendurskoðun skoða fleiri möguleika í stöðunni.

Lesið meira í úttekt í Viðskiptablaðinu um stöðu fíkniefnamála.