Að því er kemur fram í frétt breska götublaðsins Daily Mail flykkjast breskir ferðamenn til Íslands um þessar mundir til að nýta sér hagstætt gengi.

Í frétt blaðsins kemur fram að breskum ferðamönnum fjölgaði um 20% á milli ára sé tekið mið af síðastliðnum septembermánuði.

Á síðasta ári komu 65.000 breskir ferðamenn hingað til lands og er gert ráð fyrir að þeim fjölgi verulega milli ára.

Í blaðinu er rætt við Sigrúnu Sigurðardóttur hjá Ferðamálaráði og segir hún að ráðist hafi verið í mjög árangursríka kynningarherferð í Bretlandi.

Í fréttinni kemur fram að lággjaldaflugfélagið Iceland Express hyggst hefja flug frá Gatwick í maí næstkomandi. Er því haldið fram að þaðan verði flogið átta sinnum á viku til Reykjavíkur og farmiðinn aðra leið muni kosta 69 pund.

Haft er eftir Matthías Imsland, forstjóra IE, að bókunarstaðan sé góð og flug frá Gatwick muni hafa jákvæð áhrif.