Greiningaraðilar norræna bankans Nordea komu til Íslands til að rýna í stöðu íslenska efnahagsins nú á dögunum í kjölfar þess að höft voru afnumin og að auknir möguleikar opnuðust fyrir erlendri fjárfestingu hér á landi. Meginniðurstaða Nordea var að staða efnahagsins hér á landi væri betri en hún hefur verið lengi. Hægt er að lesa greiningu Nordea hér. Hins vegar segja greiningaraðilarnir ferðamannaiðnaðurinn og húsnæðismarkaðinn óstöðuga þætti og benda á að forsvarsmenn Seðlabanka Íslands ekki þá einu sem hafa áhyggjur af stöðu krónunnar.

Á Íslandi hittu greiningaraðilar Nordea meðal annars forsvarsmenn Seðlabanka Íslands, aðila úr fjármálaráðuneytinu, fólk úr viðskiptabönkunum þremur og einn blaðamann. Að þeirra mati eru ferðamannaiðnaðurinn og miklar hækkanir á fasteignamarkaðinum áhættuþættir sem keyra upp hagvöxt en telja þá ekki sjálfbæra. Þeir benda á að 2,3 milljónir ferðamanna munu líklega sækja Ísland heim árið 2017, sem er nálægt fimmföldum íbúafjölda Íslands. Greiningaraðilarnir hafa því áhyggjur af því að Ísland sé að verða of vinsælt.

Í greiningunni er vísað til nokkurra ástæðna fyrir því að Íslendingarnir sem við var rætt hafa ekki áhyggjur af húsnæðisbólu, þrátt fyrir gífurlega miklar hækkanir á fasteignaverði. Þar var meðal annars bent á að skuldsetning heimila væri nokkuð lág og að aukið framboð íbúða væri á leið inn á markaðinn.

Einnig var farið yfir stöðu krónunnar. Tekið er fram að Seðlabankinn sé einn á þeirri skoðun að styrking krónunnar sé eðlileg. Að mati hinna aðilanna sem að Nordea ræddi við væri styrkingin alltof mikil og hefði neikvæð áhrif á aðrar útflutningsgreinar á Íslandi.

Að lokum er tekið fram í greiningunni að erlend fjárfestingin er nú aftur velkomin á Íslandi og að fjármagnshöft hafi að mestu leyti verið afnumin á Íslandi. Hins vegar, benda greiningaraðilarnir á að vegna þess að Ísland sé að verða ívið of vinsælt ferðamannaland, efast þeir um að íslensk stjórnvöld leyfi landinu að verða of vinsælt þegar kemur að innstreymi erlends fjármagns.