Alvarlegir greiðsluerfiðleikar heimila landsins vegna skulda hafa minnkað um nærri 25% á síðastliðnum þremur árum, samkvæmt niðurstöðum skýrslu um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar. Samkvæmt þeim hafa leiðir stjórnvalda til að milda áhrif kreppunnar á fólk með lágar tekjur og millitekjur með því að beita velferðarkerfinu á markvissan hátt hafa reynst árangursríkar. Botninum var náð fyrir tveimur árum en síðan þá hefur vöxtur hafist á ný og kjörin batnað. Landið er að ná sér fyrr upp úr kreppunni en aðrar kreppuþjóðir.

Stefán Ólafsson, prófessor við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, kynnti niðurstöðurnar í velferðarráðuneytinu í morgun. Þetta er önnur skýrslan af tveimur sem Þjóðmálastofnun Háskólans hefur unnið fyrir ráðuneytið um áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

Í skýrslunni er fjallað um áhrif mótvægisaðgerða stjórnvalda á skuldavanda, fátækt, fjárhagsþrengingar heimila og atvinnu. Skýrsluhöfundarnir, þeir Stefán, Arnaldur Sölvi Kristjánsson hagfræðingur og Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingu, byggðu á margvíslegum opinberum talnagögnum og skýrslum auk ýmissa hérlendra og erlendra kannana sem varpa ljósi á aðstæður fólks. Hliðsjón var höfð af sambærilegum greiningarverkefnum erlendis og stuðst við hefðbundna opinbera mælikvarða á lífskjörum og kreppueinkennum, svo sem í vinnu OECD, Eurostat og hjá erlendum fræðimönnum á þessu sviði.

Skýrslan sýnir m.a. að Ísland hefur farið að mörgum leyti aðra leið í gegnum kreppuna en algengast er á Vesturlöndunum.

Skýrslurnar má nálgast hér: Áhrif mótvægisaðgerða á skuldavanda, fátækt og atvinnu.