Ísland er friðsælasta land í heimi tíunda árið í röð samkvæmt nýjustu úttekt stofnunarinnar Institute for Economics and Peace (IEP). Ísland er einnig með minnstu hernaðaruppbygginguna á heimsvísu.

IEP gefur út ritið Global Peace Index á ári hverju þar sem gerð er tilraun til að gefa stöðumynd af frið á alþjóðavísu. Stofnunin reiknar út svokallaðan friðarstuðul fyrir 163 lönd (99,7% af mannfjölda heimsins) sem tekur mið af 23 megindlegum og eigindlegum þáttum. Þessir undirþættir skiptast í þrjá meginþætti: samfélagslegt öryggi, átök innan lands og utan og umfang hernaðaruppbyggingar. Samkvæmt þessari nálgun hefur Ísland verið friðsælasta land heims frá árinu 2008 eða í áratug.

Friðhorfur hafa batnað á heimsvísu samkvæmt mælingum IEP, en friðarstuðullinn hefur hækkað um 0,28% á undanförnu ári. Friðarhorfur dragast saman í 68 löndum en aukast í 93 löndum. Mestur var batinn í stöðu friðar í Suður-Ameríku en staða friðar versnaði mest í Norður-Ameríku, einkum í Bandaríkjunum. Þá er Evrópa áfram friðsælasta svæði heims, en 8 af 10 friðsælustu löndum heims eru í heimsálfunni.

Á eftir Íslandi í frið koma Nýja Sjáland, Portúgal, Austurríki og Danmörk. Sýrland er stríðshrjáðasta land heims samkvæmt listanum en næst koma Afganistan, Írak, Suður-Súdan og Jemen.