Samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins (ESB) verður verg landsframleiðsla á Íslandi tæplega 10 milljarðar evra á árinu 2009 eða sem nemur 31 þúsund evrum á hvern íbúa.

Í samanburði við umrædd 30 ríki verður Ísland í 13 sæti, á svipuðum slóðum og Frakkland og Þýskaland, og allnokkuð hærra en meðaltöl fyrir evru-svæðið eða ESB í heild.

Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins (SA) en Hagstofa ESB hefur birt yfirlit yfir landsframleiðslu aðildarríkja ESB og EFTA-ríkjanna undanfarin ár og spá fyrir það ár sem nú er hafið.

Þá kemur fram að umreikningur Hagstofu ESB á landsframleiðslu Íslands í evrur byggist á gengi evru á bilinu 155 -160 kr. á árinu 2009.

Á vef SA kemur fram að sé miðað við spá Seðlabankans frá því í nóvember 2008 um landsframleiðslu og gengi krónu gagnvart evru á þessu ári (141 kr.) verður landsframleiðslan um 11 milljarðar evra eða um 35 þúsund evrur á mann. Ef spá Seðlabankans gengur eftir verður Ísland í 10. sæti í Evrópu hvað varðar þennan mælikvarða á verðmætasköpun á mann. Rétt fyrir ofan Ísland verða Hollendingar, Finnar og Svíar og næstir á eftir koma Belgar, Frakkar, Þjóðverjar og Bretar.

Ef gengi krónu gagnvart evru verður 170 kr. á árinu, þ.e. eins og það er um þessar mundir, þá fellur Ísland niður í 15. sæti Evrópuríkja hvað varðar landsframleiðslu í evrum á mann og verður þá rétt fyrir neðan Bretland og nálægt meðaltali ESB-ríkja sem nota evru sem gjaldmiðil.

Sjá nánar á vef SA.