Afar hæpið er að siglingar gegnum Íshafið skapi grundvöll fyrir umskipunarhöfn á Íslandi á næstu árum. Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar sem unnin var að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Að undanförnu hefur reglulega verið rætt um þau tækifæri sem Íslandi standa til boða í kjölfar þess að nýjar siglingaleiðir opnist í gegnum Norðurslóðir. Meðal annars hefur verið unnið að undirbúningi umskipunarhafnar í Finnafirði.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar segir að kannað hafi verið hvort Ísland væri álitlegur staður til að þjóna siglingum gegnum Íshafið. Hér væri til að mynda hægt að umskipta úr styrktum skipum yfir í hefðbundin skip. Finnafjörður var borinn saman við umskipun á Svalbarða, Kirkenes í Noregi eða að siglt væri alla leið á styrktu skipi til Belgíu eða Hollands.

„Ísland er aldrei hagstæðasti kosturinn - landið er hreinlega úr leið. Oftast virðist borga sig að umskipa ekki - með öðrum orðum að sigla á styrktum skipum á leiðarenda,“ segir í skýrslunni.

„Ef áfram hlýnar og hafís heldur áfram að hörfa, þannig að aðstæður á leiðinni þvert yfir Norðurskautið verði á endanum góðar, liggur beint við að fara þá leið. Miðleiðin er stutt og án takmarkana um djúpristu. Þess vegna mætti sigla á mjög stórum skipum og nýta hagkvæmni stærðar þannig til fulls. Þá kann Ísland að hafa samkeppnisforskot vegna góðs hafnarstæðis í Finnafirði og dýptartakmarkana í öðrum höfnum. En hér er horft langt fram í tímann, sennilega 40-50 ár,“ segir þar enn fremur.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér .