Raforkuverð erlendis hækkar í kjölfar hækkandi verðs á hráolíu og jarðgasi. Rafmagn samsvarar þriðjungi af framleiðslukostnaði áls. Því leita álframleiðendur nýrra staðsetninga með hliðsjón af því hvar ódýra raforku er að finna, samkvæmt greiningardeild KB banka. Raforkuverð hérlendis er 30% ódýrara en gengur og gerist og því er Ísland vænlegur kostur til frekari uppbyggingar áliðnaðar í augum framleiðanda. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Frá því í mars hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað um 15% en hafði þá ekki verið jafnhátt síðan í janúar 1995. Samkvæmt greiningu KB banka þrýstir lækkandi verð enn frekar á álframleiðendur að staðsetja álver sín þar sem ódýra roforku er að finna til að vega upp á móti verðlækkuninni.

Eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu hefur Alcoa, sem er stærsti álframleiðandi heims, varað við lokunum í Þýskalandi og Bandaríkjunum vegna hærri framleiðslukostnaðar og lækkandi álverðs. Alcoa sem hefur um 120.000 starfsmenn í yfir 40 löndum stendur nú fyrir byggingu álvers í Reyðarfirði.