Samtök aðila í ferðaþjónustu segja að framundan sé eitt stærsta verkefni sem íslensk ferðaþjónusta hafi staðið frammi fyrir en það er að stórauka vetrarferðaþjónustu um land allt. Í bréfi frá SAF segir að arðsemi í íslenskri ferðaþjónustu sé ófullnægjandi. Ástæðu hennar má að miklu leyti rekja til mikilla árstíðasveifla. Aukin arðsemi fyrirtækjanna er forsenda þess að fyrirtækin geti stundað vöruþróun, fræðslu- og gæðastarf og öfluga markaðssetningu auk þess sem hún leiðir til fleiri heilsársstarfa og betra jafnvægis. Aukin vetrarferðaþjónusta er því leiðin til aukinnar arðsemi.

Allt frá aðalfundi SAF 2010 þar sem fyrrverandi ferðamálstjóri Finnlands sagði félagsmönnum frá því hvernig Finnar fóru að því að gera ferðaþjónustuna yfir veturinn stærri en yfir sumarið hefur verið unnið að því að kom á samstarfsverkefni um vetrarferðaþjónustu. Stjórn SAF kallaði helstu aðila, sem að ferðaþjónustu koma, til samstarfs í upphafi ársins auk þess sem fulltrúar frá sveitafélögum og fulltrúar SA og ASÍ eiga sæti í stýrihóp sem þá tók til starfa. Kallað var eftir fjármagni frá ríkinu og settu SA og ASÍ það inn í kröfur í tengslum við kjarasamningana. Það varð því vendipunktur í málinu þegar ríkisstjórnin ákvað að setja kr. 300 milljónir á ári í 3 ár í markaðsverkefni í vetrarferðaþjónustu.

Ríkisstjórnin mun einnig setja ótilgreint fé til nýsköpunar aukalega á fyrsta ári. Skilyrði þessa framlags er að fyrirtæki og sveitarfélög jafni upphæðina. Samstarfsaðilar að verkefninu, sem hlotið hefur vinnuheitið ÍSLAND – ALLT ÁRIÐ, eru nú þegar iðnaðarráðuneytið, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu og er unnið að því að fá fjárframlög frá ýmsum stórfyrirtækjum sem tengjast ferðaþjónustu. Fyrirtækin innan SAF leika þar stórt hlutverk en þátttaka ferðaþjónustufyrirtækja er bundin við félagsmenn SAF. Um er að ræða framlög fyrir fyrsta árið og eru þau ekki ávísun á hin tvö árin en vonandi munu þátttakendur sjá sér hag í að taka þátt öll árin.

Í sumar hafa tveir hópar verið að störfum í því skyni að undirbúa markaðsstarfið. Greiningarhópur undir stjórn Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er að safna gögnum sem til eru um vetrarferðaþjónustu á Íslandi og gera könnun meðal fyrirtækja, hópur undir stjórn Íslandsstofu er að afla gagna frá fjórum viðmiðunarlöndum, Noregi, Finnlandi, Kanada og Nýja Sjálandi en SAF fjármagna það verkefni. Markmiðið er að bera saman samkeppnisfærni Íslands gagnvart þessum löndum á sviði vetrarferðaþjónustu og skoða hvernig þau starfa. Báðir hópar munu ljúka störfum í lok ágúst. Á sama tíma er Ferðamálastofa að láta vinna kortlagningu á landssvæðum sem er mjög mikilvæg vinna fyrir þetta verkefni. Þessar niðurstöður verða nánar kynntar síðar. Framundan Markaðsátakið ÍSLAND – ALLT ÁRIÐ er rekið af Íslandsstofu og verður umsjón með verkefninu á hendi þeirra sem munu standa að samningnum.