Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, varar Breta og Bandaríkin við að enda ekki á sömu braut og Íslendingar í grein sem hann ritar á vefsvæðið Voxeu og birtist í dag.

Í greininni nefnir hann áhyggjur af því að Bretland og Bandaríkin beri merki þess að vera að breytast í þrotríki eða „failed state“ þar sem grafið sé undir trausti og virðingu fyrir sannleikanum. Þar vísar hann sérstaklega til forsetatíðar Donald Trump og árásarinnar á þinghúsið í Washington í janúar sem og Brexit kosninganna á Bretlandi árið 2016 og aðdraganda þeirra.

Í greininni var hann við því að verði ekki innleiddar umbætur fljótlega geti talsmenn lýðræðis geti lent í því að aukin völd færist í hendur þeirra sem dreifi ósannindum til eigin hagsbóta, og vísar þar til Íslands.

Valdastétt útgerðamanna ríki í ríkinu

Þorvaldur segir að sumir greinindur telji að Ísland beri mörg merki þrotríkis eða „failed state“. Ekki kemur fram í greininni til hvaða greinenda Þorvaldur vísar til en hann nefnir þrjár ástæður fyrir því að flokka megi Ísland sem þrotríki.

Í fyrsta lagi séu ólígarkar í rússneskum anda mikið vandamál hér á landi. Þeir séu alla jafna eigendur útgerða, sem stjórnmálastéttin hafi gert auðuga með því að afhenda aðgang að sjávarútvegsauðlindinni ókeypis eða nánast ókeypis. Í skiptum fyrir fé hafi stjórnmálamenn skapað sjávarútvegsvaldastétt sem hagi sér eins og ríki í ríkinu, stýri stefnumálum stjórnmálaflokka, niðurstöðum dómsmála, leiðurum dagblaðanna og ákveðnum akademískum ráðningum og ýmsu öðru.

Í öðru lagi hafi stjórnmálamenn og ólígarkanir hunsað niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar hafi verið skýrt kveðið á um að auðlindir ættu að vera í þjóðareigu. Þorvaldur var einn þeirra sem sat í stjórnlagaráði sem samdi tillögur að nýrri stjórnarskrá.

Ákveðnir ólígarkar hafi einnig komist í kast við lögin í Namibíu, og vísar Þorvaldur þar til rannsókna og dómsmála tengd útgerð Samherja í Namibíu.

Í þriðja lagi sé starfsfólk stjórnsýslunnar og dómstóla á Íslandi að stórum hluta pólitískt ráðið og taki við skipunum frá stjórnmálastéttinni. Hið sama eigi við um stóran hluta viðskiptalífsins. Sjálfstæðisflokkurinn og Samtök atvinnulífsins hafi til að mynda bæði lagst gegn því að Íslandi gangi í Evrópusambandið. Þá hafi margir innan þeirra raða lýst yfir stuðningi við Trump og Brexit.

Traust á stjórnmálum hafi einnig hrunið. Til að mynda beri einungis 23% Íslendinga traust til Alþingis og 37% til dómskerfisins samkvæmt könnun Gallup.

Þorvaldur veltir upp hvað sé til ráða í hinum vestræna heimi. Hugsanlega sé það dómskerfisins að takast á við meinta glæpi Donald Trump og Repúblikana í Bandaríkjunum. Sannleiks- og sáttanefnd dugi varla þar sem sættir án sannleika og eftirsjár sé ómöguleg. Því virðist dómstólar eina lausnin við vandanum í stjórnmálum í Bandaríkjunum sem og öðrum ríkjum sem farið hafi svipaða braut. „Látum Namibíu vísa veginn,“ segir Þorvaldur að lokum.

Mat á spillingu skar sig úr

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni er Þorvaldur annar tveggja sérfræðinga sem standa að SGI vísitölunni, sem er ein af sjö vísitölum sem Transparency International byggir spillingarvísitölu sína á. Einkunnargjöf SGI skar verulega úr fyrir Ísland.

Sjá einnig: Spilling ekki aukist á Íslandi

Aðferðafræði SGI byggir á huglægu mati Þorvaldar og Grétars Þórs Eyþórssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. Stigagjöf þeirra um spillingu á Íslandi hefur fallið úr 89 stigum árið 2012 í 44 stig árið 2020 en aðrir matsaðilar sem Transparency byggði á gáfu Íslandi 72 til 87 stig af 100 mögulegum árið 2020.