*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 20. maí 2018 12:34

Ísland berskjaldað fyrir hærra olíuverði

Erlendir greiningaraðilar spá hækkandi olíuverði, en það gæti aukið verðbólgu hér á landi og hægt á fjölgun ferðamanna.

Snorri Páll Gunnarsson
Fari olíuverð hækkandi gæti það dregið úr komum ferðamanna hingað til lands til lengri tíma litið.
Haraldur Guðjónsson

Olíuverð gæti hækkað á næstu mánuðum vegna ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Hækki olíuverð áfram gæti það orðið dragbítur á hagvöxt hér á landi.

„Hærra olíuverð kemur sér illa fyrir Ísland og eftir því sem hækkunin er meiri eru áhrifin neikvæðari,“ segir Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.

Ísland flytur inn og notar meiri olíu en flest önnur Evrópuríki miðað við höfðatölu. Ástæðan fyrir því er hlutfallslega stór flutningageiri, stærsti bílafloti heims miðað við höfðatölu og sjávarútvegurinn, en stærstu notendur olíu á Íslandi eru flugfélög í millilandaflugi, bifreiðar og innlend fiskiskip.

Sjá einnig: Olíuverð gæti farið í 100 dali

„Fari það svo að olíuverð hækki verulega gæti það kostað íslenska þjóðarbúið tugi milljarða króna,“ segir Daníel. Það velti þó á því hversu lengi hærra olíuverð vari.

Rýrir ráðstöfunartekjur heimilanna

Almennt kemur kostnaður við hærra olíuverð fram í hagkerfinu eftir mismunandi leiðum. Eldsneytisverð á Íslandi fylgir verði á heimsmarkaði og gæti aukinn bensínkostnaður dregið úr ráðstöfunartekjum heimilanna. Kostnaður fyrirtækja við flutninga á varningi eða fólki í lofti, á landi og sjó eykst með hærra olíuverði, sem dregur úr hagnaði og fjárfestingu. Hærra olíuverð myndi einnig kynda undir verðbólgunni, sem dregur úr kaupmætti og hækkar höfuðstól verðtryggðra lána, ásamt því að rýra viðskiptaafganginn og veikja krónuna.

Olíuverð hefur verið fremur lágt frá árinu 2015, eftir að hafa verið rúmlega 100 dollarar á tunnuna milli 2011 og 2014. Þá hefur verðbólga á Íslandi verið lág og stöðug undanfarin fjögur ár.

Gæti hægt á fjölgun ferðamanna

Daníel bætir því við að hærra olíuverð gæti einnig hægt á fjölgun ferðamanna hér á landi.

„Stærstu notendur eldsneytis á Íslandi eru flugfélög í millilandaflugi. Mörg þeirra nota framvirka samninga með olíu nokkra mánuði fram í tímann, en ef olíuverð heldur áfram að hækka gætu flugfélögin þurft að velta því út í fargjaldaverðið. Til lengri tíma litið gæti það að einhverju leyti dempað ferðamannastrauminn hingað til lands,“ segir Daníel. Aukin verðbólga á alþjóðavísu vegna hækkunar olíuverðs gæti einnig hægt á fjölgun ferðamanna.

Olíuverð hefur farið hækkandi það sem af er ári og eldsneytiskostnaður flugfélaga vaxið samkvæmt því. Laun í alþjóðlegum flugrekstri hafa einnig verið að vaxa. Nú þegar eru komnar fram vísbendingar um að meðalflugfargjöld séu á uppleið og enn frekari hækkanir á olíuverði bæta þar gráu ofan á svart. Spurningin er hvort að aukin samkeppni muni vega þyngra en kostnaðarhækkanir.

EBITDA Icelandair Group dróst til að mynda saman milli ára á fyrsta ársfjórðungi meðal annars vegna vaxandi eldsneytiskostnaðar. Samkvæmt afkomutilkynningu félagsins myndi 10% hækkun í olíuverði, að teknu tilliti til áhættuvarna, draga úr áætlaðri EBITDA fyrir árið um 10,7 milljónir dollara. WOW air notar ekki olíuvarnir.

Viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Íran gætu einnig haft önnur óbein áhrif á íslensk fyrirtæki. Afturköllun á viðskiptaleyfum bandarískra og alþjóðlegra fyrirtækja í Íran gæti leitt til þess að fyrirtækin sæki á aðra markaði þar sem íslensk fyrirtæki eru fyrir. Þá gæti hærra olíuverð einnig haft áhrif á heimsmarkaðsverð fyrir aðrar útflutningsafurðir Íslands, svo sem sjávarfang og ál, vegna aukins kostnaðar. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Íran Trump olía olíuverð ferðaþjónusta flugfélög