*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 3. apríl 2020 14:55

„Ísland best í heimi“ ekki viðeigandi

Víðir Reynisson varar við því að bera aðgerðir í baráttunni gegn kórónuveirunni á Íslandi saman við erlend ríki. Margt sé einfaldara á Íslandi.

Ritstjórn
Víðir Reynisson.
Aðsend mynd

Erlendir fjölmiðlar hafa sýnt aðgerðum íslenskra yfirvalda í baráttunni gegn kórónuveirunni talsverðan áhuga á síðustu dögum. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að mjög margar fyrirspurnir hefðu borist og Íslandi væri sýndur mikill áhugi. Hann vissi ekki hvort það væri eitthvað sérstakt við Ísland eða hvort það ætti jafn mikið við í öðrum löndum.

Alma Möller landlæknir sagði hópinn fara daglega í viðtöl í erlendum fjölmiðlum.

„Við fáum ógrynni af fyrirspurnum. En það er alltaf reynt að fá okkur til að bera okkur saman við aðra — hvort við séum eitthvað miklu betri en aðrir,“ sagði Víðir Reynisson.

„Við höfum reynt að fá fólk til að horfa á Ísland í samhengi. Það er margt sem er miklu einfaldara fyrir okkur. Við erum færri, við erum land þar sem upplýsingastreymið er gott og við náum til fólks og það eru allir með okkur í þessu. Þannig að við vörum við því að það sé verið að reyna að bera Ísland endilega saman við aðra og eitthvað Ísland best í heimi „syndrome“ er ekki viðeigandi núna, bara alls ekki,“ sagði Víðir.