Athugasemdir íslenskra stjórnvalda bárust of seint til þess að FATF gæti yfirfarið þær í tæka tíð fyrir fund aðgerðarhópsins í vikunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem FATF, alþjóðlegur aðgerðarhópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverki, sendi frá sér eftir fundinn þar sem ákveðið var að setja Íslandi á gráan lista þjóða sem ekki uppfylla skilyrði hópsins um varnir gegn peningaþvætti.

Samkvæmt skýrlsu sérfræðingahópsins, sem ber ábyrgð á eftirfylgni með því að Ísland uppfylli skilyrði FATF, voru sex skilyrði enn óuppfyllt í lok nýliðins september. Þann 7. október birtu stjórnvöld athugasemdir sínar á vef stjórnarráðsins þar sem farið er yfir úrbætur vegna athugasemda hópsins.

„Að mati íslenskra stjórnvalda eru úrbætur vegna allra þeirra atriða í skýru og tímasettu ferli eða þegar lokið,“ segir í tilkynningunni á vef Stjórnarráðsins þann 7. október sl..

Í yfirlýsingu FATF er þrjú atriði tiltekin sem ekki töldu uppfyllt: (1) Að stjórnvöld hafi ekki tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur. (2) Ljúka þurfi innleiðingu á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur. (3) Innleiða þurfi í lög skilvirka yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka. Tryggja þurfi að til staðar séu ferlar, aðferðir og mannauður til að hafa yfirsýn yfir þau almannaheillafélög sem gætu helst verið í hættu.

Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að verði niðurstaðan sú að Ísland verði sett á lista FATF muni íslensk stjórnvöld kappkosta að það verði aðeins til skamms tíma.

FATF getur endurskoðað afstöðu sína á næsta ári.

„Íslensk stjórnvöld hafa ásamt erlendum ráðgjöfum lagt mat á möguleg áhrif af því að Ísland lendi á listanum. Það er samdóma álit þeirra að áhrifin verði óveruleg ef af verður og er hvorki talið að sú niðurstaða hafi bein áhrif almenning né fjármálastöðugleika á Íslandi. Erlendir aðilar í viðskiptum við íslensk fyrirtæki, þá einkum fjármálafyrirtæki og tryggingafélög, gætu þurft að kanna sjálfstætt hvort varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka séu nægilega tryggar. Unnið hefur verið að því að tryggja upplýsingagjöf til slíkra aðila með það að markmiði að takmarka áhrifin ef af verður,“ segir í niðurlagi fréttarinnar á vef Stjórnarráðsins.