*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 14. maí 2019 12:39

Ísland brotlegt í fjórum málum

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í dag að Ísland hefði í fjórum málum ekki uppfyllt skyldur sínar.

Ritstjórn

EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í dag að íslenska ríkið hefði í fjórum málum ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum um að innleiða tilskipanir og reglur Evrópusambandsins. Allar umræddar breytingar liggja fyrir þinginu nú.

Um er að ræða fjórar tilskipanir en innleiðingu þeirra bar að ljúka í maí 2017. Það dróst hins vegar. Upphaflega var stefnt að því að leggja þær fyrir Alþingi á síðasta vorþingi en það náðist ekki og sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, málin því til EFTA-dómstólsins.

Í öllum tilfellum var komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki lagt fram haldbærar skýringar á þeim drætti sem varð. Málin sem um var deilt hafa nú verið lögð fram á Alþingi en það var gert í mars eða tæpum tveimur árum eftir að innleiðingu þeirra í landsrétt átti að vera lokið.