Ísland er ekki lengur á dagskrá stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðinn 3. ágúst eins og til stóð. Það þýðir að fyrstu endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun AGS og íslenskra stjórnvalda hefur verið frestað.

William Murray, upplýsingafulltrúi hjá AGS skrifstofunni í Washington, segir í samtali við Viðskiptablaðið að nýr fundartími hafi ekki verið ákveðinn.

Seinkun endurskoðunarinnar þýði að önnur greiðsla láns AGS til Íslendinga tefst og þar með fyrsta greiðsla láns Norðurlandanna.

William Murray tekur fram að dagsetningin 3. ágúst hafi aldrei verið niðurjörvuð þótt hún hafi komið fram á vef AGS.

Hann kveðst ekki eiga von á því að fundurinn verði haldinn þá. Hann segir sömuleiðis að AGS sé enn að vinna að endurskoðun áætlunarinnar og fínpússa hana í samráði við íslensk stjórnvöld.

Þá segir hann að ekki liggi fyrir hvenær stjórn sjóðsins muni taka Ísland fyrir á fundi sínum en það verði þó varla fyrir 20. ágúst í ljósi þess að stjórnin sé að fara í frí fram að þeim tíma.

Icesave setur strik í reikninginn

Óvissa hefur staðið um það að undanförnu hvort stjórn AGS myndi fjalla um Ísland á fundi sínum í byrjun ágúst. Í vikunni var þó umfjöllun um Ísland sett á dagskrá stjórnar sjóðsins á vef AGS.

Nú hefur Ísland hins vegar verið tekið út af dagskránni sem fyrr sagði og má ljóst vera að það tengist því að Alþingi sé ekki enn búið að afgreiða frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina.

Franek Rozwadowski, fulltrúi AGS, hér á landi, vildi ekki tjá sig um málið við Viðskiptablaðið rétt í þessu þegar eftir því var leitað.

Þær upplýsingar fengust frá forsætisráðuneytinu á fimmta tímanum að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vildi ekki tjá sig um málið fyrr en formleg staðfesting hefði fengist frá AGS um frestunina.

Fréttin var uppfærð kl. 16.28.