Ísland fer niður um eitt sæti á milli ára á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) á samkeppnishæfni þjóða á síðasta ári. Skýrslan heitir The Global Competitiveness Report 2013-2014.  Landið situr nú í 31. sæti listans. Árið 2008 var Ísland í 20. sæti listan en féll um sex sæti eftir kreppuna og hefur ekki náð stöðu sinni á ný. Á meðal landa í svipuðum sætum eru Puerto Rico, Eistland og Kína. Sviss er í efsta sæti listan eins og fjögur ár þar á undan. Singapúr er í öðru sæti, Finnland í því þriðja og Þýskaland í fjórða sæti.

Önnur ríki á lista yfir tíu samkeppnishæfustu ríkin eru Bandaríkin, Svíþjóð, Holland og Bretland, Hong Kong og Japan.

Það er Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem aflar gagna fyrir Alþjóðaefnahagsráðið ár hvert.

Sömu þættir draga úr samkeppnishæfni landsins og fyrri ár, þ.e. þrálátur veikleiki efnahagsumhverfisins og veikur fjármálamarkaður. Á móti hagnast landið á því að það færist nær aukinni sjálfbærni og velgengni í efnahagslífinu. Um er að ræða þætti og stöðu heilbrigðismála og menntunar á öllum stigum og viðskiptalíf sem drifið er áfram af nýsköpun og áherslu á nýja tækni sem eykur framleiðni á mörgum sviðum.

The Global Competitiveness Report 2013-2014