Ísland er í efsta sæti á lista ING fjárfestingabankans yfir þau lönd sem eiga mest á hættu að verða illa úti vegna skorts á fjármagni.

Samkvæmt frétt rússneska miðilsins Kommersant um málið skoðaði ING nokkur ríki sem hafa miklar skammtímaskuldir og geta þess vegna orðið næstu fórnarlömb fjármagnskreppunnar. Um er að ræða lönd með of hátt hlutfall erlendra skulda á móti gjaldeyrisforða seðlabanka landsins.

Á þessum lista er Ísland eins og fyrr sagði í efsta sæti og í frétt Kommersant segir að samdráttur sé þegar kominn í efnahagslíf landsins. Önnur lönd búa við betri hag, en t.d. segir í skýrslu ING að þrátt fyrir að Kasakstan hafi átt í efnahagsvandræðum síðan sumarið 2007 þá bjargi hækkandi olíuverð landinu frá því að lenda í vandræðum vegna skorts á erlendu fjármagni. Þá hefur hærra málmverð bjargað málum fyrir Úkraínu hingað til. Þau lönd sem eru í hvað minnstri hættu samkvæmt niðurstöðum ING eru Kína, Taíland og Rússland.