Það var áfall þegar við fengum niðurstöður PISA-könnunarinnar árið 2001, þótt það sé mikilvægt að halda því til haga að PISA segir ekki allt. Engu að síður voru niðurstöðurnar áfall og það sást í almenningsumræðunni og stjórnmálaumræðunni,“ segir Kristin Clemet, fyrrverandi menntamálaráðherra Noregs.

Clemet var menntamálaráðherra fyrir Hægri flokkinn árin 2001 til 2005 og hélt utan um miklar umbætur í norska skólakerfinu, sem ráðist var í á þessum tíma. Nú stjórnar hún stórri hugveitu í Noregi. Clemet var viðstödd fund Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins um menntamál í þarsíðustu viku, og hélt þar erindi um breytingarnar á norska kerfinu.

Hún segir slæmar niðurstöður úr PISA-könnunum og umræðurnar í kjölfarið hafa lagt grunninn að því að hægt var að ráðast í umbætur. Samfélagið hafi gert sér grein fyrir því að fjárfestingar þess í menntakerfinu væru ekki í samræmi við árangurinn, og að eitthvað yrði að breytast.

„Næstu árin var mikið lagt í rannsóknir á þessum málum svo að við fengum miklar upplýsingar um norska skóla og um menntun almennt. Í tvö ár varð mjög líflegumræða í norsku samfélagi og með þessari umræðu fengum við umboð til þess að þróa umbætur og ráðast í breytingar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .