Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, afhenti í dag lettneskum starfsbróður sínum, Edgars Rinkevics, bréf til formennsku Evrópusambandsins og framkvæmdastjórn þar sem tilkynnt er að ríkisstjórn Íslands hafi samþykkt á fundi sínum sl. þriðjudag að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik. Kemur þetta fram í frétt á vefsíðu Utanríkisráðuneytisins. Rinkevics gegnir nú formennsku í Evrópusambandinu.

Í bréfinu segir að ríkisstjórn Íslands líti því svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja og fer þess á leit við ESB að sambandið taki hér eftir mið af því. Jafnframt er tekið fram að litið sé svo á að þessi nýja stefna yfirtaki þær skuldbindingar sem gefnar voru í aðildarviðræðum fyrri ríkisstjórnar.

Í fréttinni segir að Rinkevics segist virða þessa niðurstöðu og að hann taki undir áframhaldandi mikilvægi góðs náins samstarfs ESB og Íslands.