Forstjóri Advania Data Center og formaður Þróunarfélags Grundartanga segja íslenskt raforkuverð orðið of hátt og hafa áhyggjur af þróuninni hjá orkufrekum iðnaði landsins að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið sem kom út á fimmtudaginn fjallaði um hefur ADC samið um hátt í 9 milljarða króna fjárfestingu til uppbyggingar nýs gagnavers við Stokkhólm, en fyrsti áfanginn sem taka á gagnið á næsta ári kostar um 2 milljarða króna.

Eyjólfur Magnús Kristinsson forstjóri ADC segir að til viðbótar við að fá raforkuna um fimmtungi ódýrari í Svíþjóð en hér á landi þar sem gagnaverin þurfi að greiða hæsta verðið af stórnotendum fáist orkan 40% ódýrar með því að selja varmann af kælikerfum veranna til húshitunar í borginni.

„Orkuverð í miðborg Stokkhólms er 20 prósentum lægra en það sem okkur býðst á Íslandi. Sá munur eykst ef gagnaver eru byggð upp í Norður-Svíþjóð. Orkuverð hér er orðið allt of hátt eða 25-40 prósentum hærra en til dæmis í Svíþjóð og Noregi,“ segir Eyjólfur Magnús.

Ólafur Adolfsson formaður Þróunarfélags Grundartanga, þar sem um 1.100 manns starfi hjá um 20 stórum og smærri fyrirtækjum auk um þúsund vtil viðbótar þjónustu svæðið, segir að verja þurfi þau störf sem fyrir eru í orkufrekum iðnaði.

„Það er varhugaverð þróun að verið sé að verðleggja íslenskan iðnað út af samkeppnismörkuðum. Við höfum ítrekað varað við þessu. Þetta lýtur ekki eingöngu að samkeppnishæfni nýrra verkefna,“ segir Ómar sem segir rangan samanburð að bera saman verð á stundarmörkuðum milli landanna.

„Slíkur samanburður er rangur því að í langtímasamningum um orkukaup á Norðurlöndum er verð töluvert ódýrara en stundarmarkaðir segja til um.“