Á vefsíðu Evrópusambandsins er Ísland enn á lista yfir þau ríki sem sótt hafa um aðild að sambandinu. Er Ísland þar í hópi ríkja eins og Albaníu, Svartfjallalandi, Serbíu og Tyrklandi.

Eins og fram hefur komið hefur utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sent ESB yfirlýsingu þar sem fram kemur að ríkisstjórn Íslands líti ekki svo á að Ísland sé lengur umsóknarríki að sambandinu.

Í tilkynningu sem send var frá utanríkisráðuneytinu í gær var greint frá því að Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, sem nú gegnir formennsku í ráðherraráði ESB, hafi sent Gunnari Braga bréf þar sem fram komi að Evrópusambandið taki mið af vilja íslenskra stjórnvalda sem fram hafi komið í áðurnefndu bréfi utanríkisráðherra.

Haft er eftir Gunnari Braga í tilkynningunni að hann geri ráð fyrir því að Ísland verði nú tekið út af listanum yfir umsóknarríki, eins og óskað hafi verið eftir.