Ísland er ennþá mikilvægasti markaður íslensku viðskiptabankanna þrátt fyrir að vægi þess í viðskiptamódeli þeirra hafi minnkað talsvert á undanförnum árum. Þetta kemur fram í Hálf fimm fréttum greiningardeildar Kaupþings frá því í gær.

Þó telur greiningardeilin líklegt að það muni breytast í náinni framtíð þar sem vöxtur bankanna verður fyrst og fremst erlendis: „Íslenska krónan hefur mun minna vægi en Ísland sem markaðssvæði þar sem mikið af fjármögnun íslenskra aðila fer nú fram í erlendri mynt. Hjá Kaupþingi er til dæmis vægi krónu í heildar lánasafni ekki nema 13% og hafa þrjár aðrar myntir meira vægi en hún. Líklegt er að staða lánasafns hinna viðskiptabankanna muni þróast með líkum hætti og gerst hefur hjá Kaupþingi, með sífellt minnkandi vægi krónu," segir í Hálf fimm fréttum.

Veiking krónunnar mun jafnframt hafa áhrif á efnahagsreikning og þenja út eignir og skuldir í erlendri mynt. „Bankarnir hafa varið eigið fé sitt fyrir þessari útþenslu efnahagsreikningsins og er það nauðsynleg aðgerð til að viðhalda heilbrigðum eiginfjárhlutföllum í gegnum gjaldeyrissveiflur líkt og þá sem við göngum nú í gegnum."