„Málið er ósköp einfallt - Ísland er að verða Rússland. Ég hugsaði bara til baka; hvað gera Rússar? - Jú, þeir endurnýta," sagði hjá Björgvin Þór Hólm, framkvæmdastjóri tölvuþjónustufyrirtækisins Tölvuvirkni, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Björgvin Þór Hólm hefur gripið til þess ráðs að hefja markvissa endurnýtingu og endursmíði á eldri tölvum. Með því sagðist hann vera að reyna að verja vinnu þeirra sem starfa hjá fyrirtækinu og vonandi spara gjaldeyri fyrir land og þjóð.

Björgvin segir að eftir góðæri undanfarinna ára sé til gríðarlegt magn af tölvum og tölvuíhlutum sem að margra dómi sé ónýtt. Tölvur eru hins vegar þannig gerðar að þær eru byggðar upp á íhlutum sem bila sem betur fer ekki allir á sama tíma.

Allt síðan bankakerfið hrundi hefur Tölvuvirkni keypt gamlar tölvur og tölvuíhluti til að endursmíða úr því nothæfar tölvur. Þannig byggja þeir tölvur upp með nýjum og notuðum íhlutum sem seldar eru sem notuð vara með sex mánaða ábyrgð.

„Þegar þú færð tölvu frá okkur er hún fullkomlega uppsett. Oft eru þessar tölvur líka með Microsoft-leyfum og þau fylgja tölvunni. Það eru verðmæti sem Íslendingar spara sér með því að kaupa notaða vöru. Við eigum því helling af gjaldeyri í landinu sem við erum að endurnýta. Við þurfum fyrir vikið ekki að flytja eins mikið inn."

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .