Ásta Sigríður Fjeldsted tók sumarið 2017 við starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands eftir fjórtán ára dvöl erlendis. Hún telur að hægt sé að nýta mannauðinn hér á landi mun betur en gert er og að sterk staða ríkisins á vinnumarkaðnum dragi úr hvata til nauðsynlegs einkaframtaks. Ásta bendir á að Ísland sé samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum að dragast aftur úr þegar kemur að samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði og telur brýnt að létta á og ívilna fyrirtækjum í landinu til að tryggja nauðsynlegan vöxt á því sviði.

Spurð um hvort eitthvað hafi komið henni á óvart við komu sína á íslenska vinnumarkaðinn, segir Ásta að hún hafi í rauninni ekki áttað sig á því hvað Íslendingar séu vel menntuð þjóð. Hún óttast þó að menntun þjóðarinnar sé að verða of einsleit.

„Frá árinu 2000 hefur fjöldi háskólamenntaðra hér á landi aukist um 200% og það sýnir hvað við erum orðin hámenntuð þekkingarþjóð. Ég hef hins vegar dálitlar áhyggjur af því að við séum að verða of einsleit og séum einhvern veginn of mörg að stefna í sömu átt. Þetta endurspeglast í þeirri staðreynd að við erum ekki að sjá fjölgun í þeim fögum sem við þurfum sérstaklega á að halda, til dæmis í verk- og tæknimenntun. Það eru ákveðnar greinar í háskólunum, í hug- og félagsvísindum, sem eru mjög fjölmennar, en aðrar þar sem sárvantar fólk. Þetta misvægi menntunar og tækifæra spilast auðvitað beint út í samfélagið og viðskiptalífið - en þar erum við einfaldlega ekki að skapa nægilega mörg störf til þess að veita þessu fólki alvöru tækifæri þar sem færni þeirra og þekking nýtist sem best."

Ísland í bullandi samkeppni

Spurð um hvort áherslur Viðskiptaráðs hafi breyst frá því að hún tók við starfinu, segir Ásta að það sé eðlilegt að með nýju fólki komi nýjar áherslur. Þannig sé það einfaldlega þegar fólk fylgi eigin sannfæringu og nýtir þá reynslu sem það hefur öðlast.

„Í mínu tilfelli þá hef ég aldrei starfað hjá íslensku fyrirtæki nema hjá Össuri í um tvö ár, en þá var ég reyndar send beint til Frakklands. Þetta litaði auðvitað strax mínar áherslur, en lög Viðskiptaráðs sem við höfum fylgt í yfir 100 ár tryggja þann málefnaramma sem við styðjumst við í okkar vinnu og ber þar helst að nefna eftirfylgni okkar við að hér sé ekki verið að íþyngja fyrirtækjum um of með auknum skattaálögum eða lagasetningum og að rekstrarumhverfið sé sem hagfelldast.

Eftir fjórtán ára dvöl erlendis var augljóst að ég þurfti hraðnámskeið í íslenskri viðskiptasögu til að átta mig á samhengi hlutanna. Ég hafði þó fylgst vel með úr fjarlægð og var svo heppin að koma hingað til lands árið 2013 sem ráðgjafi á vegum McKinsey. Þá lærði ég fjölmargt um íslenskt viðskiptalíf og hvernig stjórnmál, verkalýðshreyfingin, þekkingarsamfélagið og fleiri hafa áhrif á mótun stefnu landsins. En á þessum tíma hafði þáverandi forsætisráðherra komið á fót svokölluðum Samráðsvettvangi um aukna hagsæld til að hrinda hugmyndum McKinseyskýrslunnar í framkvæmd. Þarna unnu saman allir stjórnmálaflokkar, háskólarnir, fyrirtækin í landinu, verkalýðshreyfingin og fleiri. Það opnaði augu mín fyrir tækifærum og áskorunum í samfélaginu og var afskaplega hjálplegt við það að koma svo aftur heim til þess að skilja þessa stóru mynd. Viðskiptaráð hefur verið hluti af þessari vinnu æ síðan og stefna ráðsins er í raun að huga að ákveðinni tiltekt hér innanlands sem fólst í því hvað Ísland þyrfti að gera til þess að koma sér aftur af stað eftir hrun. Það var virkilega gott starf sem þar var unnið. Þegar ég tók við hjá VÍ var því kannski eðlilegt skref að horfa meira út á við, huga að Íslandi í alþjóðlegri samkeppni og fókusera á atriði sem eru að hafa áhrif á gjörvallan heiminn. Í mínum huga eru þetta fjögur atriði: samkeppni á tímum mikilla tæknibreytinga, mennta- og mannauðsmál, umhverfis- og loftlagsmál og alþjóðlegt tengslanet. Út frá þessum atriðum skoðum við okkar viðfangsefni. Til lengri og skemmri tíma."

Ísland er að dragast aftur úr í samkeppnishæfni

Þegar umræðan beinist að stöðu hagkerfisins hér á landi, leggur Ásta áherslu á að mikilvægt sé að stíga varlega til jarðar.

„Við erum búin að ná toppi hagsveiflunnar og það er með öllu óvíst hvort einhver gæs flýgur í fang okkar líkt og ferðamennirnir gerðu á sínum tíma og því þurfum við að hugsa strategískt næstu skref. Við þurfum að huga að ákveðnum sveigjanleika í kerfinu og hvers konar rekstrarumhverfi gefist best til að styðja við uppbyggingu fyrirtækja hér á landi. Það eru augljósar áskoranir fyrir aðila í rekstri á Íslandi sem snúa kannski fyrst og fremst að gífurlega háum launakostnaði. Um 65% af verðmætasköpun fyrirtækja fara í launakostnað, sem eðlilega takmarkar þróunar- og fjárfestingaframlög. Tryggingagjaldið sem leggst á launa- og lífeyrissjóðsgreiðslur hefur aukið á þunga launagreiðenda - sérstaklega þeirra sem eru með minni fyrirtæki í nýsköpun, en þar er launakostnaður hlutfallslega þyngstur.

Annað sem ég hef tekið eftir í nýlegum samtölum mínum við aðildarfélaga VÍ er hvernig íþyngjandi og jafnvel ófyrirsjáanleg löggjöf veldur erfiðleikum í rekstri. Samkvæmt úttekt forsætisráðuneytisins innleiðum við t.d. í um þriðjungi tilfella, löggjöf EES með meira íþyngjandi hætti en önnur lönd. Af hverju þarf fleiri belti og axlabönd á íslensk fyrirtæki? Þessi þróun hefur kannski verið meira áberandi eftir hrun en við þurfum líka að skoða hvað við séum að hefta með þessu. Ný persónuverndarlög sem voru innleidd hér á landi nýlega með meira íþyngjandi hætti en löggjöf EES krafðist, er dæmi um þetta. Fyrir utan þann gríðarlega kostnað sem sú innleiðing felur í sér hjá hverju og einu fyrirtæki. Við höfum tekið saman tölur um þetta og tíminn sem hefur farið í innleiðinguna hleypur á tugum þúsunda klukkustunda með tilheyrandi kostnaði hjá um 80 fyrirtækjum sem við ræddum við. Þegar metnar eru skattaálögur á fyrirtæki er þetta ekki tekið með í reikninginn.

Svo ég haldi nú áfram að þá má auk þess nefna að skatthlutfall þeirra sem eiga atvinnuhúsnæði er margfalt hærra en þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði. Þegar allt þetta hrannast upp er ekki skrítið að maður spyrji sig hver tilgangurinn sé með að halda úti svo stífu og illrekstrarhæfu umhverfi fyrir fyrirtækin í landinu, þar sem hin raunverulega fjárhagslega verðmætasköpun á sér stað.

Varðandi framhaldið þá þurfum við í auknum mæli að einblína á þá staðreynd að við erum að keppa á alþjóðlegum vöru-, þjónustu- og fjárfestingamarkaði, þar sem tækni- og innviðir gera það að verkum að landamæri eru nánast eingöngu til að nafninu til. Til að standast þá samkeppni þarf tilkostnaður að vera sambærilegur.

Þó að alþjóðlegir mælikvarðar segi ekki alltaf alla söguna þá gefa þeir okkur ákveðna mynd af þróuninni. Við erum því miður að dragast aftur úr þegar kemur að samkeppnishæfni okkar samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum og því tímabært - sérstaklega í ljósi þess að hægja hefur tekið á hagvexti - að taka stóru ákvarðanirnar um að létta á og ívilna fyrirtækjunum í landinu í stað þess að herða ólina og kæfa þann vöxt sem við þurfum á að halda næstu árin."

Viðtalið við Ástu má í heild sinni nálgast í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér .