Helga Valfells
Helga Valfells
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Það er mikill kraftur í nýsköpunargeiranum hér á landi. Það er eilífðarverkefni að styðja við sprotana og fyrirtæki sem eru að taka sín fyrst skref,“ segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri NSA. Í skýrslu sinni sem fylgir ársreikningi segir Helga að NSA hafi mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn vinni með öðrum fjárfestum að því að láta góðar hugmyndir verða að veruleika.

Vænglausir fuglar

En þetta á ekki að vera dans á rósum, segir Helga. „Það á ekki að vera auðvelt að sækja fjárfestingu í nýsköpunarverkefni. Eins og sást best á netbólunni fyrir rúmlega tíu árum geta sumir fjárfestar grætt á því að fjárfesta í röngu fyrirtæki á réttum tíma. Í hvirfilbyl eru jafnvel vænglausir fuglar fleygir. Það er ekki gott fyrir samfélagið sem heild ef lélegar viðskiptahugmyndir fá of mikið fjármagn og til lengri tíma litið getur það skilið eftir tómarúm fyrir fyrirtæki og fjárfesta sem koma á eftir.“

Þolinmæði

Þegar kemur að nýsköpun er þolinmæðin dyggð. Fjárfestar verða að vera tilbúnir að vinna með fyrirtækjum í langan tíma, þar til fjárfestingin skilar sér til baka. Í versta falli tapast fjárfestingin ef að hlutirnir ganga ekki upp. Helga segir fjárfestingar í nýsköpun séu mikilvægar fyrir samfélagið. „Það er augljóslega ennþá verra fyrir samfélagið ef ekkert er fjárfest í nýsköpun. Það er hlutverk okkar allra sem komum að nýsköpun að stuðla að því að Ísland sé góður staður til að stofna fyrirtæki sem byggja á tækni, þekkingu og sköpun. Heilbrigt fjárfestingaumhverfi leikur þar lykilhlutverk, þar sem frumkvöðlar geta leitað til fjárfesta og fjármálastofnana og fengið hlutafé og lán á sanngjörnum kjörum. Þar sem frumkvöðlar geta fengið til liðs við sig vandaða fjárfesta. Vandaður fjárfestir er fjárfestir sem hefur skilning á vaxtarstigi fyrirtækisins og getur komið með viðbótarþekkingu og þolinmótt fjármagn inn í fyrirtækið,“ segir Helga.

Ísland eftirbátur

Helga segir að Ísland sé eftirbátur þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að fjárfestingu í nýsköpun. „Tölfræðin sýnir að meira er fjárfest í nýsköpun sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í nágrannalöndum okkar heldur en á Íslandi [...] Nýsköpunarsjóður hefur staðið vaktina við fjárfestingar í nýsköpun í þrettán ár og leggur sig fram við að vinna af fagmennsku og þekkingu í öllum fjárfestingum,“ segir Helga.

Úttekt á starfsemi NSA er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.