„Við kaupum ekki símana beint frá Apple heldur óháðum söluaðila. Ísland er ekki iPhone-land og þess vegna eru þeir dýrari hér en í öðrum löndum. Á móti bjóðum við ábyrgðir og inneign í tólf mánuði,“ segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri fjarskiptafyrirtækisins Nova.

Liv Bergþórsdóttir
Liv Bergþórsdóttir
© BIG (VB MYND/BIG)

Fyrirtækið tilkynnti í dag að það væri byrjað að selja iPhone 4S-farsímana frá Apple sem komu á markað úti fyrir að verða þremur vikum. Símarnir eru mun dýrari hér en í öðrum löndum. Staðgreiddur kostar hann 169.990 krónur. Með afborgunum, 10.490 krónum í 18 mánuði, kostar hann tæpar 190 þúsund krónur.

Til samanburðar kosta símarnir í Bandaríkjunum frá 199 til 399 Bandaríkjadölum, á bilinu 22.800 til tæpra 46 þúsund króna án tillits til gjalda og virðisaukaskatts. Ætla má að verðið hlaupi á um 40 þúsund til tæpra 78 þúsund króna með gjöldum og skatti. Gera verður samning við tiltekin símafyrirtæki ytra til að njóta þessara kjara. Að öðrum kosti má kaupa ódýrasta símann án samnings á 650 dali, tæpar 75 þúsund krónur án gjalda.

Fyrri gerð símans, iPhone-4, kostar hér tæpar 125 þúsund krónur.

Liv segir ástæðu þess að síminn sé dýrari hér þá að Ísland sé enn ekki komið á kortið hjá Apple yfir þau lönd sem fái að selja iPhone 4S-símana ólíkt því sem er í stærri löndum, svo sem á Norðurlöndunum. Hún bendir á að Nova leggi lítið á símana frá óháða söluaðilanum en bjóði sem fyrr í staðinn tveggja ára ábyrgð á þá auk þrjú þúsund króna inneignar í tólf mánuði.