Eftirsóttir tamningamenn og þjálfarar í Noregi fá 7000 norskar krónur á mánuði fyrir hestinn eða um 160 þúsund íslenskar krónur. Þetta er mun hærra gjald en kollegar þeirra hér á landi geta rukkað fyrir sinni snúð. Þetta kemur fram í viðtali við Nils Christian Larsen á Isibless.is og Erlingur Erlingsson staðfestir það, en hann er nú búsettur í Noregi.

Algengt verð á tamningu og þjálfun fyrir mánuðinn hér á landi rokkar á bilinu 50 til 70 þúsund krónur fyrir utan vask. Innifalið er fóður, hirðing og spænir. Járning er nánast aldrei innifalin, en það var algengara fyrir áratug eða tveimur.

Alla jafna er rukkað hærra gjald fyrir stóðhesta, sem munar 10 til 20 þúsund krónum. Engin föst verðskrá er þó til sem allir fara eftir, verðin eru eins misjöfn og tamningamennirnir eru margir. Síðan er alla jafna allstór hópur tamningamann sem vinnur svart, í fullu starfi eða með annarri vinnu, og er gjaldið ívið lægra hjá þeim eða allt niður í 40 þúsund á mánuði með öllu.