Ísland getur aldrei orðið ódýr áfangastaður, að mati Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, sem vill fylgja þeirri stefnu að fá til landsins ferðamenn sem geti gengið vel um landið og borgað vel fyrir það. Þá telur Bogi Nils að ekki sé hægt að reka lággjaldaflugfélag frá Íslandi.

Þetta kom fram í erindi sem Bogi Nils hélt á fundi Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu á Hilton Reykjavík Nordica í morgun, en bankinn gaf út nýja skýrslu um ferðaþjónustu á dögunum. Bogi tók þátt í panelumræðum á fundinum ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, sem tók undir með Boga að Ísland væri dýr áfangastaður og yrði það áfram, lífsgæði væru með þeim hætti hér á landi.

Þórdís sagði að ekki hefði verið réttlætanlegt að ríkið gripi inn í til að bjarga flugfélaginu WOW. Farið hefði verið yfir allar hliðar málsins og mögulegar afleiðingar aðgerða. Ýmsir hafi vísað í aðkomu þýskra stjórnvalda að Air Berlin en þar hafi þó ríkið tapað miklum fjármunum og aðstæður allt aðrar en í tilfelli WOW.  Bogi tók undir þá skoðun og sagði að með slíku hefði góðum peningum verið hent á eftir slæmum. Kostnaðarstrúktúr á Íslandi sé með slíkum hætti að hér sé ekki hægt að reka lággjaldaflugfélög í samkeppni við t.d. Wizz air og Easy Jet.