Samkvæmt niðurstöðum IMD-viðskiptaháskólans í Sviss um samkeppnishæfni hagkerfa er Ísland nú sjöunda samkeppnishæfasta hagkerfi heims og fellur niður um þrjú sæti á milli ára. Samkvæmt niðurstöðum IMD eru Bandaríkin samkeppnishæfasta hagkerfið, Singapúr fylgir fast á eftir og loks er Hong Kong í þriðja sæti. Könnun IMD um samkeppnishæfni þjóða er mjög virt enda er hún víðtæk og ítarleg og tekur til meira en 300 mismunandi þátta í hagkerfum þjóða. Ísland hefur verið ofarlega á listanum undanfarin ár og skipað sér meðal efstu þjóða allt frá árinu 2003.


Það eru því ákveðin vonbrigði að Ísland skuli falla niður í sjöunda sæti nú. Vaxandi viðskiptahalli, veikari króna og mikil verðbólga setur þar strik í reikninginn og dregur Ísland niður listann. Ekki hafa þó allir þættir versnað frá því á síðasta ári en meðal þeirra þátta sem standa betur nú en fyrir ári síðan má nefna lægra atvinnuleysi, aukna utanríkisverslun og vaxandi frumkvöðlaanda. Viðskiptaráð Íslands og Glitnir kynna niðurstöður könnunarinnar ítarlega í næstu viku. Ennfremur verða kynntar mögulegar aðgerðir til að bæta ennfremur stöðu íslensks hagkerfis í alþjóðlegu samhengi. Viðskiptaráð annaðist framkvæmd könnunarinnar hérlendis en Glitnir veitir ráðinu liðveislu við framkvæmd hennar.