„Ísland finnur fyrir kuldanum.“ Þannig er fyrirsögn á grein Mark Landler, blaðamans Skotland on Sunday um Ísland sem birtist í blaðinu í gær.

Í grein sinni fer Landler yfir stöðu mála á Íslandi. Grein Landler er að miklu leyti endursögn á því sem þegar hefur birst síðustu daga en farið er yfir háa stýrivexti, mögulegar árásir vogunarsjóða, gjaldeyrisforða Seðlabankana og möguleikana á því að ríkisstjórnin bjargi bönkunum lendi þeir í frekar krísu.

Meðal annars er vitnað í Richard Portes sem þegar er orðinn lesendum Viðskiptablaðsins kunnugur en nafn hans kom mikið fyrir í úttekt blaðsins um helgina.

Portes fékk hringingu, segir í greininni, frá yfirmanni vogunarsjóðs sem furðaði sig á því af hverju Portes væri ekki neikvæðari um Ísland. Í grein Landlers kemur fram að Portes hafi sett sig í samband við Fjármálaeftirlitið daginn eftir til að tilkynna um hugsanlegar ólöglegar aðgerðir við skortsölu.

Þó er haft eftir Portes í greininni að íslenska efnahagskerfið hafi verið of þanið og tími hafi verið kominn á leiðréttingu.

Þá kemur fram í grein Landlers að þrátt fyrir þá stöðu sem ríki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sé lítil hætta á því að íslensku bankarnir verði gjaldþrota eins og gjarnan er gefið í skyn.

„Eins og staðan er núna lítur virðist enn vera uppgangur í Reykjavík, byggingarkranar út um alla borg, einkaþotur á flugvellinum og Range Rover á hverju horni,“ segir Landler í grein sinni.

Hér má sjá grein Landlers á vef Skotland on Sunday.