Ísland er fjórða samkeppnishæfasta land í heimi samkvæmt niðurstöðum könnunar sem IMD- viðskiptaháskólinn í Sviss framkvæmir árlega. Greint var frá niðurstöðunum á vef Viðskiptablaðsins í gær en þær voru formlega kynntar á fundi í morgun

Ísland er efst þeirra Evrópuþjóða og stendur í stað frá því fyrir ári síðan en Bandaríkin eru í fyrsta sæti, Hong Kong í öðru og Singapúr í því þriðja.

Á fundi Viðskiptaráðs og Glitnis þar sem niðurstöðurnar voru kynntar sagði Halldór Benjamín Þorbergsson hagfræðingur Viðskiptaráðs að niðurstöðurnar væru staðfesting á framúrskarandi stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir og að þrátt fyrir að Ísland standi nú í stað á milli ára sé það langt frá því að teljast vonbrigði.

Ingólfur Bender forstöðumaður Greiningar Glitnis sagði á fundinum að þau ríki sem væru fyrir ofan Ísland á listanum væru margfalt stærri hagkerfi sem treystu á útflutning í mun meira mæli og því geta Íslendingar vel við unað að verma fjórða sætið á eftir þeim.

Könnunin sem hefur verið framkvæmd af einum virtasta viðskiptaháskóla heims frá árinu 1989 er þekkt fyrir að gefa raunhæfa og samanburðarhæfa mynd af hagkerfi og viðskiptaumhverfi þeirra 60 landa sem skoðuð eru. Könnunin tekur til meira en 300 hagvísa og svörum frá framámönnum í viðskiptalífinu en Ísland hefur verið með í úttektinni frá árinu 2002 og hefur á þeim tíma stokkið upp úr ellefta sæti í það fjórða.