Matsfyrirtækið Moody's hefur staðfest lánshæfiseinkunnina Aaa fyrir Ísland sem er hæsta einkunnin sem að fyrirtækið gefur og segir mat um stöðugar horfur byggjast á aukinni fjölbreytni hagkerfisins og sveigjanleika þess.

Sérfræðingur Moody's bendir á að íslenska hagkerfið sé frábrugðið öðrum hagkerfum í Vestur-Evrópu sökum smæðar, sveiflna í efnahagslífi og mikillar erlendrar skuldsetningar. Þrátt fyrir það leggur sérfræðingur Moody's og einn af höfundum skýrslunnar, Kristin Lindow, áherslu á að sterk staða ríkisfjármála, tiltölulega hagstæð aldurssamsetning þjóðarinnar og kröftugur hagvöxtur styðji þessa lánshæfiseinkunn.

Hagvöxturinn á síðasta ári mældist 4% og fór langt fram úr væntingum, atvinnuleysi minnkaði hins vegar ekki en verðbólgan var undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, að sögn Lindow. Engu að síður lýsir sérfræðingurinn áhyggjum af því að ójafnvægis sé þegar farið að gæta í þjóðarbúskapnum, einkum af völdum mikillar uppsveiflu sem hófst með erlendri fjárfestingu á síðasta ári.

Moody's segir að efnahagsaðstæður gætu versnað ef til kæmi mikil lækkun á gengi krónunnar eða óvænt og kröpp efnahagslægð og að í ljósi þess sé enn brýnna að halda áfram að lengja lánstíma erlendra lána þjóðarbúsins. Einnig verði afar mikilvægt að fylgja aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum og peningamálum og að stuðla að hóflegri röðun framtíðarfjárfestinga sem kunna að vera til athugunar.

Án slíks aðhalds óttast sérfræðingur Moody's að sú aðlögun sem nauðsynleg verður til þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum á ný geti orðið harkalegri en mjúk aðlögun hagkerfisins 2001-2002. Moody's ítrekar hins vegar að íslenska hagkerfið hafi reynst ?óvenju sveigjanlegt í viðbrögðum sínum við sveiflum"og telur matsfyrirtækið að slík aðlögun ætti að geta endurtekið sig.