*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 8. apríl 2021 13:02

Ísland frábær prufumarkaður fyrir útrás

Dineout, bókunarkerfi fyrir veitingastaði, tók við 34.000 bókunum í mars.

Ritstjórn
Inga Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Dineout
Aðsend mynd

Dineout, sem heldur úti heildstæðu bókunarkerfi fyrir veitingastaði, tók við 34.000 bókunum, fyrir þrjá gesti að meðaltali, í mars síðastliðnum. Um 120 fyrirtæki eiga nú í viðskiptum við Dineout og notendur Dineout Iceland, smáforrit sem fyrirtækið gaf út fyrir þremur mánuðum, eru orðnir níu þúsund talsins.

Fyrirtækið segir að Ísland hafi verið frábær prufumarkaður fyrir útrás. „Við vorum komin inn á nokkra veitingastaði á Spáni áður en faraldurinn skall á og erum enn betur undirbúin núna þegar heimurinn opnast aftur,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttir, einn stofnenda og eigenda Dineout, í fréttatilkynningu. Jafnframt bendir hún á að hugbúnaðarlausnirnar fyrirtækisins eru á ensku, íslensku og spænsku en einnig sé auðvelt að þýða þær á önnur tungumál.

Dineout hefur frá stofnun árið 2017 fyrst og fremst einblínt á borðabókanir en er nú byrjað að bjóða upp á heimsendingar samhliða „take away“ lausninni sem fyrirtækið bætti við bókunarkerfi sitt á síðasta ári vegna samkomutakmarkana sem Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma

„Það sem aðgreinir okkur frá öðrum markaðstorgum er kannski það að við erum að bjóða upp á take-away & heimsendingar frá gæða veitingastöðum. Við viljum gera landsmönnum kleift að upplifa fyrsta flokks hráefni og mat heimavið og það frábæra við það er að verðin eru oftast álíka og þegar fjölskylda pantar sér pizzu,“ segir Inga Tinna.

„Við erum búin að sjá gríðarlega aukningu þrátt fyrir veirufaraldurinn Það virðist vera mjög vinsælt að fara út að borða og/eða panta mat í þessu árferði."

Stikkorð: Dineout