Ísland hefur alla burði til að verða ný alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þetta segir Aldo Musacchio, prófessor frá Harvard Business School, í erindi sínu um þróun efnahagsmála á morgunfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton hótel Nordica í morgun. Þar benti hann á að vaxtarmöguleikar Íslands gætu orðið töluverðir og að ráðlegt væri fyrir okkur að nýta reynslu okkar eftir hrun á sviði fjármála til að gera Ísland að miðstöð fjármála og fríverslunar líkt og Síngapúr og Hong Kong. Hann tekur þó fram að um langtímaverkefni sé að ræða og að árangurs sé ekki að vænta á næstu árum, að því gefnu að ákveðið verði að feta þessar slóðir.

Spurður að því hvort það sé raunhæft að stefna á að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð fjármála og fríverslunar í ljósi þess að við höfum smáan óstöðugan gjaldmiðil og búum þar að auki við gjaldeyrishöft segir Musacchio að það sé ekki vandamál til langs tíma.

Ekki ný hugmynd

Svipaðar hugmyndir hafa áður verið viðraðar hér á landi en skemmst er að minnast þess að árið 2005 skipaði forsætisráðuneytið sérstaka nefnd um möguleika Íslands sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar og gaf út skýrslu um þá möguleika ári síðar. Þær fyrirætlanir gengu ekki eftir.

VB Sjónvarp ræddi við Musacchio.