Greiningardeild Arion banka fór yfir nýja gengisspá Seðlabanka Íslands, sem kom út í Peningamálum , samhliða ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum óbreyttum. Greiningardeildin benti á að spáin hafi verið færð upp á við frá því í nóvember og nú er því spá að krónan verði rúmu 1% sterkari í ár en áður var gert ráð fyrir. Hægt er að lesa greiningu Arion banka hér.

„Fram til ársins 2019 er svo gert ráð fyrir 3% meiri styrkingu en áður var spáð. Þetta þýðir að raungengi krónunnar verður 7% hærra árið 2019 heldur en árið 2005 þegar það náði síðasta toppi. Það merkilega er er að á sama tíma er viðvarandi viðskiptaafgangur sem byggist á meiri útflutningi og betri viðskiptakjörum. Í sannleika sagt óttumst við að þessi sviðsmynd sé of góð til að vera sönn til lengri tíma,“ segir í frétt greiningardeildar Arion banka.

Bent er á að öllu óbreyttu þýði frekari gengisstyrking og því hækkun raungengis að Ísland verður líklega dýrasta land í heimi. „Ef íslensk fyrirtæki geta þá á sama tíma flutt meira út heldur en inn myndi teljast mikið efnahagsleg afrek, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Það sama gildir þó hér og varðandi lækkun jafnvægisvaxta að enginn veit nákvæmlega hversu mikið jafnvægisraungengi krónunnar hefur hækkað, eins og kom skýrt fram á kynningarfundi um vaxtaákvörðunina,“ segir að lokum í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.

Krónan: Sterkasta mynt í heimi

Í nýlegri greiningu Arion banka er kafað dýpra í gengisstyrkingu krónunnar. Í þeirri greiningu kemur meðal annars fram : „Á suma mælikvarða má segja á Íslendingar séu ein allra ríkasta þjóð í heimi og krónan sé sterkasti gjaldmiðill í heimi. Stóra spurningin er því hvort það sé eitthvað sem getur staðist til lengri tíma.“

Þar er einnig tekið fram að ef að litið er til hlutfallslegs verðlags milli nokkurra landa miðað við mismunandi mælikvarða Eurostat, IMF og, OECD, auk nýjustu gengisþróunar krónunnar kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Til að mynda hefur verðlag á Íslandi hækkað talsvert frá árinu 2015 og er:

  • 53% hærra en að meðaltali í ESB.
  • Ísland er 7% dýrara en Noregur.
  • Og 4% frá því að vera dýrara en Sviss.

„Árið 2015 var Sviss dýrasta land í heimi miðað við mismun á landsframleiðslu í dollurum á nafnvirði og leiðrétt fyrir kaupmáttjaröfnuði (PPP) skv. mati IMF eins og má sjá hér að neðan. Frá miðju ári 2015 hefur íslenska krónan styrkst um 22% gagnvart svissneskum franka svo að ef við miðum við kaupmáttarleiðrétt gengi gjaldmiðla skv. IMF frá 2015, þá er Ísland nú komið upp fyrir Sviss og að líkindum orðið dýrasta land í heimi á þeim mælikvarða,“ er einnig tekið fram í þeirri greiningu.