Með því að betrumbæta nýsköpunarumhverfið hér á landi gæti  Ísland orðið frábært nýsköpunarland og erlendum frumkvöðlum dreymt um að koma fyrirtækjum sínum á legg hér. Þetta sagði Frosti Sigurjónsson, stofnandi Dohop og alþingismaður, í ársfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Margt þurfi að laga, að mati Frosta.

Frosti benti á að Ísland hefur getið af sér stór of stöndug fyrirtæki sem selja vörur og þjónustu erlendis og skapa mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið, þrátt fyrir smæðina, fæðina og fjarlægðina. Hann sagði að mörgu leyti vera góð skilyrði til nýsköpunar á Íslandi og benti meðal annars á hraða, traust, smæð, ódýrt umhverfi, einfalt regluverk, góða innviði, tæknistig, og mannauðinn. Hann sagði frábæran upphafsmarkað vera á Íslandi en benti þó á að flest fyrirtæki væru stofnuð með von um framtíðar útflutning vegna stærð heimamarkaðarins. Einnig hrósaði hann hraðanum hér á landi, en á Íslandi tekur kannski 3-4 vikur að sannfæra æðsta stjórnanda um að taka ákvörðun í garð fyrirtækis, sem tekur mörg ár erlendis. Hann sagði íslenska stjórnendur líka nýjungagjarna sem væri mjög jákvætt.

Ódýrara er einnig að koma sprotum á legg á Íslandi heldur en í til dæmis Kísildalnum í Kaliforníu. Hins vegar geta fyrirtæki sem stofnuð eru á sitthvorum staðnum verið jafn verðmæt þegar þau eru seld síðar meir.

Nýta þarf viðskiptaengla betur

Frosti benti á nokkrar leiðir til þess að nýta umhverfið á Íslandi og gera það enn betra. Efla þarf Nýsköpunarsjóð svo hann geti stutt fleiri fyrirtæki. Lífeyrissjóðir gætu einnig komið að eflingu nýsköpunar á landinu. Þannig mætti auka hagvöxt, ávöxtun og áhættudreifingu sjóðanna. Fjárfesting lífeyrrissjóða í nýsköpun upp á 2-9% eigna gæti aukið ávöxtun lífeyrissjóða án þess að auka markaðshættu segir Frosti.

Einnig mætti nýta viðskiptaengla betur, að mati Frosta. Hann sagði þeim fjölga sem hafi reynslu af nýsköpun sem búa yfir þekkingu og viðskiptasamböndum sem sprotafyrirtæki geta nýtt og eru auðugir. Engill sé gagnlegastur fyrstu 1-3 árin. Hann sitji hins vegar fastur í 5-15 ár. Þetta geri það að verkum að flestir viðskiptaenglar eru óvirkir og nýtast ekki vel.

Frosti sagði það geta verið til bóta að losa engla út í áföngum svo reynsla þeirra gagnist fleiri sprotafyrirtækjum. Sjóðir gætu einnig ákveðið að fjárfesta einungis í fyrirtækjum sem englar hefðu nú þegar fjárfest í því þá væru þeir búnir að meta að fyrirtækið væri fjárfestingarinnar virði.