Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Karel De Gucht, viðskiptastjóri Evrópusambandsins ESB), bundust í dag fastmælum um að náið samráð yrði haft við Íslendinga í krafti stöðu landsins sem umsóknarríkis um fríverslunarsamning á milli ESB og Bandaríkjanna.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að De Gucht hafi sagt heppilegt að slíkt samráð færi fram á vettvangi reglulegs samráðs háttsettra embættismanna um viðskiptamál sem komið var á fót í tengslum við aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Hann kvað þó skýrt að orði að samningurinn yrði einungis á milli þessara tveggja aðila, ESB og Bandaríkjanna.

Um risasamning er að ræða enda mun hann ef af verður ná til þriðjungs af öllum viðskiptum heimsins. Hann snýr að tveimur stoðum, markaðsaðgang fyrir vöru og þjónustu, gagnkvæma viðurkenningu á stöðlum og samræmdum reglum um hnattræn viðfangsefni.

Þá segir í tilkynningunni að Össur hafi þegar skrifað John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um mögulega aðkomu Íslands að fríverslunarsamningnum og tekið málið upp við kollega sína innan EFTA.