Ísland tekur við formennsku í EFTA og EES-samstarfinu frá 1. júlí n.k. og fer með hana til áramóta, en ríkin skiptast á formennsku á hálfs árs fresti.

Í síðustu viku var haldinn ráðherrafundur EFTA ríkjanna í Montreux í Sviss og sat Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra fundinn. Á fundinum var undirritaður fríverslunarsamningur EFTA við Líbanon en auk þess var undirritaður tvíhliða fjárfestingarsamningur Íslands og Líbanon. Sérstakur gestur ráðherrafundarins var Franz Fischler, framkvæmdastjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarmála Evrópusambandsins. Helstu málefni ráðherrafundarins Ráðherrarnir ræddu þá þróun sem verið hefur í fríverslunarsamningaviðræðum EFTA ríkjanna, en undanfarið hafa staðið yfir viðræður við m.a. Egyptaland og Túnis, auk þess sem viðræður eru í gangi við Suður-Afríska tollabandalagið.

Allt eru þetta ríki sem ESB hefur þegar gert fríverslunarsamninga við. EFTA ríkin hafa jafnframt horft til frekari samninga í Asíu. Nýlega var gert samkomulag við Suður-Kóreu um að hefja könnun á hagkvæmni fríverslunarsamnings við EFTA og einnig hefur verið ákveðið að hefja viðræður við Taíland um möguleika á fríverslun. Ríki Ameríku eru einnig mjög áhugaverð í þessu sambandi, en þegar eru samningar komnir á við Mexíkó og Chile. Samningum við Kanada er hins vegar ekki lokið og reynt verður til þrautar að endurvekja þær viðræður í haust, en kosningar standa nú fyrir dyrum í landinu. Fundur verður haldinn með viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna innan skamms, þar sem kannaðir verða möguleikar á frekari viðskiptatengslum milli EFTA og Bandaríkjanna.