Forsætisráðuneytið hyggst skipa nefnd á næstunni sem mun skoða möguleika á því að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Ekki er búið að skipa nefndina en ákveðið er að Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, verði formaður nefndarinnar, sagði talsmaður ráðuneytisins í samtali við Viðskiptablaðið. Líklegt er að stofnun nefndarinnar verði formlega tilkynnt í næstu viku.

Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um það hvernig bæta megi viðskiptaumhverfið á Íslandi og að skoða hvernig hægt er að stuðla að áframhaldandi þróun íslenska fjármálamarkaðarins, samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu. Einnig mun nefndin fara yfir hvernig best er að halda íslenskum fyrirtækjum í landinu og laða að erlend félög.

Talsmaður ráðuneytisins sagði að ekki væri stuðst við erlendar fyrirmyndir, svo sem bresku eyríkin Jersey eða Guernsey, og að nefndin myndi taka mið af íslensku umhverfi.