Ísland er komið á gráan lista FATF yfir þau lönd sem eru undir eftirliti, þar sem þau hafa ekki uppfyllt skilyrði um aðgerðir til að sporna gegn peningaþvætti. Mannlíf greindi fyrst frá þessu í morgun. FATF er alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en samtals eiga 39 aðilar fulltrúa í FATF.

Önnur ný lönd á listanum eru Mongólía og Zimbabve, en fyrir voru meðal annars Botswana, Kambódía, Gana, Pakistan, Panama, Sýrland og Jemen.

„Fram kemur í samantekt eftir fund FATF í vikunni að unnið sé að aðgerðaáætlun með íslenskum stjórnvöldum til að taka á alvarlegustu vanköntum,“ segir í frétt á vef Mannlífs.

Í  skýrslu FATF sem birt var 2018 eru tiltekinn  51 ágalli á umgjörð og framkvæmd í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi. Í kjölfarið hóf dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið, ásamt Fjármálaeftirlitinu, Ríkislögreglustjóra, Ríkisskattstjóra og Tollstjóra, vinnu við að bregðast við athugasemdum FATF.

Sérfræðingahópur FATF, sem ber ábyrgð á eftirfylgni með Íslandi, skilaði skýrslu í nýliðnum september. Niðurstaða skýrslunnar var að enn standi út af sex atriði sem nefndin telur að geti leitt til þess að umbætur Íslands teljist ekki fullnægjandi.

- Að stjórnvöld hafi ekki tímanlegan aðgang að áreiðanlegum upplýsingum um raunverulega eigendur.

- Ljúka þurfi innleiðingu á nýju upplýsingakerfi hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu til að taka á móti tilkynningum um grunsamlegar færslur.

- Að starfsmannafjöldi miðað við umfang tilkynninga hjá skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sé ófullnægjandi.

- Ljúka þurfi reglugerð, sem Alþingi þarf að veita lagastoð, um meðhöndlun og vörslur haldlagðra, kyrrsettra og upptekinna fjármuna.

- Eftirlitsaðilar þurfi að tryggja með vettvangsathugunum að tilkynningarskyldir aðila fari að lögum um frystingu fjármuna o.fl. nr. 64/2019.

- Innleiða þurfi í lög skilvirka yfirsýn yfir starfsemi almannaheillafélaga, sér í lagi hvað varðar þau almannaheillafélög sem geta verið viðkvæm fyrir misnotkun í tengslum við fjármögnun hryðjuverka. Tryggja þurfi að til staðar séu ferlar, aðferðir og mannauður til að hafa yfirsýn yfir þau almannaheillafélög sem gætu helst verið í hættu.

Ákvörðun um að setja Ísland á gráan lista var tekin á fundi FATF í vikunni  þar sem 39 aðilar eiga fulltrúa.