Fyrir fjárfesta með langtímahagsmuni í huga og sterka tilfinningu fyrir tækifærum getur verið skynsamlegt að snúa sér til Íslands.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Irish Times eins stærsta dagblaðs Írlands.

Þar kemur fram að nýlegt hrun bankakerfisins og hrun krónunnar gæti fært fjárfestum tækifæri aldarinnar. Eins og staðan sé núna þá sé ákaflega erfitt að selja fasteignir á Íslandi og verð lækki hratt.

Í greininni er vitnað til Geirs Harðarssonar sem starfar hjá fasteignavefnum Habil.is. Hann vekur athygli írska blaðsins á að það séu byggð sterkbyggð hús á Íslandi sem endist lengi.

Þetta kemur heim og saman við fréttir af áhuga annarra fjárfesta á íslenskum fasteignamarkaði en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa margir sýnt þessum markaði áhuga undanfarið.